Við mælum kolefni
Carbon Par er íslenskt fyrirtæki sem mælir kolefni fyrir landeigendur.
Mælingarnar, sem gerðar eru fyrir og eftir tilteknar aðgerðir til að bregðast við loftslagsvánni, eru forsenda þess að sanna megi árangur þeirra, t.d. samdrátt í losun með endurheimt votlendis eða kolefnisbindingu með skógrækt.
Sjálft stefnir Carbon Par að kolefnishlutleysi árið 2030, í takti við Heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna.
Verkefni
Carbon Par varð til 2019, með samnefndri rannsókn í samstarfi við LBHÍ, sem felur í sér mat á kolefnisforða allra golfvalla innan GSÍ. Í kjölfarið höfum við sinnt álíka verkefnum fyrir erlenda golfvelli, m.a. Le Golf National í París, keppnisvöll Ryder-bikarsins 2018 og Ólympíuleikanna 2024.
Meiri hraði á lægra verði
Golfvellir hafa reynst okkur lærdómsríkir, enda eru landgerðir þeirra nær óendanlega fjölbreyttar. Tækni og aðferðir, m.a. við söfnun og greiningu jarðvegssýna sem Carbon Par hefur þróað á golfvöllum, má nú yfirfæra hvert á land sem er. Við höfum því reynslu, þjálfun og þekkingu til að takast á við allar landgerðir sem fyrirfinnast á Íslandi, með viðurkenndum aðferðum, á skemri tíma og fyrir lægra verð en áður hefur þekkst á Íslandi.
Rannsóknir
Carbon Par er rannsóknar- og nýsköpunarverkefni í eigu samnefnds, íslensks fyrirtækis, sem unnið er í samstarfi við Landbúnaðarháskóla Íslands og nýtur fjárhagslegs stuðnings frá bæði innlendum og erlendum aðilum, ásamt eigin framlagi verkefniseiganda. Í því er metinn kolefnisforði allra golfvalla innan vébanda Golfsambands Íslands.
Með því er reiknað með að einnig geti komið fram kærkomnar upplýsingar um bindingu kolefnis í slegnu grasi, sem rannsóknir gefa til kynna að aukist umtalsvert eftir því sem notkun nýframkominna, rafknúinna og sjálfvirkra sláttuvéla verður almennari. Með þeim verður m.a. raunhæft að slá gras nógu ört til að brottnám slægjunnar verði óþarft. Í stað þess að fjarlægja hana, með tilheyrandi kostnaði, er henni leyft að brotna niður í sverðinum og með því, væntanlega, stuðla að aukinni uppbyggingu kolefnis í jarðvegi.
Slíkur grassláttur hefur tíðkast á langstærstum hluta golfvalla í áratugi. Golfvellir eru því taldir framúrskarandi vettvangur rannsókna á kolefnisstöðu grasflata, sem finnast í stórum stíl á flugvöllum, meðfram öðrum samgöngumannvirkjum, í almennings- og einkagörðum og á íþróttasvæðum.
Auk þess að gera Ísland að fyrstu þjóð heims sem metur kolefnistöðu allra golfvalla sinna, þá dregur rannsóknin fram upplýsingar, sem ekki liggja fyrir í dag, og nýtast sveitarfélögum, stofnunum, fyrirtækjum, almenningi og hluta íþróttahreyfingarinnar til að draga úr kostnaði og reikna betur með grænum svæðum í loftslagsbókhaldi.